Deildir í KFUM og KFUK, kirkjur, æskulýðsfélög, barnakórar, leikskólar og fleiri eru meðal þeirra aðila sem nýtt hafa sér aðstöðuna í Vatnaskógi á undanförnum árum.

Húsakynni Vatnaskógar eru eftirfarandi:

  • Gamli skáli er elsta hús staðarins (vígður 1943) með gistirými fyrir 46 dvalargesti í þremur svefnsölum og einu tveggja manna herbergi. Í skálanum er kvöldvökusalur fyrir rúmlega 100 manns með arni, hljóðfærum og skjávarpa.  Gamli skáli er eins konar tákn Vatnaskógar.
  • Lerkiskáli var tekinn í notkun árið 1982. Þar er rými fyrir 20 dvalargesti í sex herbergjum.
  • Birkiskáli er nýjasta hús staðarins, tekið að fullu í notkun í maí 2018. Þar er gistirými fyrir 120 dvalargesti í tuttugu herbergjum. Þar er góð sturtuaðstaða. Auk þess sem þar eru 5 starfsmannaherbergi með alls 11 rúmum. Þrjár setustofur eru í húsinu, ein fyrir um 30 manns og tvær fyrir um 10. Þá er góður samkomusalur í húsinu með sæti fyrir a.m.k. 120 einstaklinga.
  • Matskálinn er með matsal sem tekur yfir 100 manns í sæti og eldhús sem búið er fullkominni eldunar- og uppþvottaaðstöðu.
  • Íþróttahús er með 350 fm íþróttasal, góðum íþróttadúk á gólfi og 6m lofthæð. Í salnum eru tvö handboltamörk og fjórar körfur (tvær þeirra er hægt að hækka og lækka. Mikið úrval er af boltum í húsinu. Þar er einnig net fyrir blak, bandýáhöld, tvö lítil mörk og góðar hástökksdýnur. Góð sturtuaðstaða er í íþróttahúsinu. Þá er í húsinu notaleg setustofa á efri hæð með bókasafni, spilum, borðtennisborðum og litlu snókerborði.
  • Bátaskýli liggur við vatnið.  Í því eru geymdir bátar sem vinsælt er að nýta til fiskveiða og annarrar skemmtunar á sumrin.  Þar eru líka geymdir hinir sívinsælu kassabílar sem eru ómissandi í hverjum dvalarflokki.
  • Kapellan er lítið og fallegt bænahús í rjóðri rétt hjá Gamla skála.  Fallegur upplýstur göngustígur liggur að kapellunni.

Hafa þarf með sér svefnpoka eða sæng og sængurver. Ef stærð hópa fer yfir 195 manns er mögulegt að koma nokkrum fjölda í viðbót fyrir á dýnum á gólfum.

Íþróttaaðstaða

Auk Íþróttahúsins í Vatnaskógi er íþróttasvæði með þremur grasvöllum, malarvelli, hlaupabraut, kastaðstöðu, stökkgryfju, minigolfi og hjólabrettapalli. Sundlaug er að Hlöðum í um 3 km fjarlægð (lokuð að mestu yfir háveturinn).

Bátar

Bátakostur á staðnum er góður. Árabátar eru af ýmsum stærðum og gerðum og nokkrir kanóar eru til. Þá er einnig til skúta og stór bátur sem getur tekið a.m.k. 12 manns í siglingu, auk björgunarbáts. Bátana er hægt að nota fram eftir hausti og gilda sérstakar reglur um notkun þeirra.

Leiktæki

Leiktæki eru af ýmsum toga. Má þar nefna sérlega vinsæla kassabíla, stultur, bolta, töfl og spil af ýmsum stærðum og gerðum. Þá má geta þess að snjóþotur, ísbor og tveir dorgar eru á svæðinu en gönguskíði þarf að hafa með sér ef ætlunin er að nota slíkt.

Umhverfi Vatnaskógar

Innan girðingar í Vatnaskógi er um 220 hektara blómlegur skógur (hæstu tré um 10 metrar) og liggja stígar um skóginn. Fjölfarinn stígur liggur inn að eyðibýlinu Oddakoti sem er við austurenda Eyrarvatns. Þangað er um 20 mínútna gangur úr Lindarrjóðri, en svo heitir svæðið næst húsunum í Vatnaskógi. Í nágrenni Vatnaskógar eru einnig margir skemmtilegir fossar og fjöll og taka gönguferðir þangað um 2-5 klst. báðar leiðir. Af þekktum stöðum í innan við 5 km fjarlægð frá Vatnaskógi má nefna Hallgrímskirkju í Saurbæ, Hótel Glym, Ferstiklu og sundlaugina að Hlöðum.

Upplýsingar um farangur

Þar sem allra veðra er von í Vatnaskógi um haust og vetur er mjög mikilvægt að hafa með sér hlýjan og góðan skjólfatnað, góða skó og föt til skiptanna. Íþróttafatnað og inniíþróttaskó er nauðsynlegt að hafa með sér ef gert er ráð fyrir að íþróttahúsið sé nýtt. Þá þurfa menn að hafa með sér svefnpoka eða sæng, lak og kodda, tannbursta og fleira þess háttar. Þess skal getið að allir óskilamunir sem finnast í Vatnaskógi eru sendir á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg og er hægt að vitja þeirra þar næstu þrjá mánuðina. Síminn þar er 588-8899.

Umgengnisreglur í Vatnaskógi

  • Allir eiga að fá að njóta dvalarinnar. Þess vegna berum við virðingu fyrir hvert öðru og kappkostum að auðsýna tillitsemi í öllum samskiptum.
  • Við göngum vel um húsnæðið og eigur Vatnaskógar. Sú venja ríkir í Vatnaskógi að ef einhver verður valdur að tjóni bætir viðkomandi fyrir það.
  • Vatnaskógur er friðlýst skógræktarsvæði. Það er því mikilvægt að um skóginn sé gengið af nærgætni og þess gætt að kasta ekki rusli á víðavangi.
  • Um bátana og vatnið gilda sérstakar reglur sem þátttakendur verða að virða. Kynnið ykkur reglurnar áður en þið farið út á bát og farið aldrei út á ísilagt vatnið nema í samráði við starfsmann Vatnaskógar.
  • Við hjálpumst að við frágang eftir matartíma og hreinsum til í herbergjum áður en við yfirgefum staðinn.
  • Mikilvægt er að allir virði auglýsta kvöldró svo að þeir sem vilja sofa hafi til þess næði.
  • Öll neysla og meðferð áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í Vatnaskógi. Brot gegn þessari reglu varðar tafarlausri brottvikningu af staðnum.
    Athugið að bjór er líka áfengi.
  • Reykingar eru óheimilar í öllum húsakynnum staðarins.